Um Fyrirtækið

svo að þér líði betur

Hugsjón

Markmið okkar hjá Bara er að skapa vandaðar, stílhreinar og endingargóðar vörur. Útgangspunkturinn í hönnuninni er bæði vellíðan og fjölbreytt notagildi og í ljósi þess skorum við á þig að nýta ímyndunaraflið til að uppgötva nýjar leiðir í notkun á vörunum.

Sagan

Árið 2002 kviknaði hugmyndin að fyrsta Bara-púðanum. Á þeim tíma barðist náinn frændi Bjargeyjar við MND-sjúkdóminn og var púðinn sérstaklega hannaður sem handleggjastoð í hjólastól fyrir hann. Púðinn reyndist það vel að í framhaldinu fór af stað mjög ítarlegt þróunarferli í samvinnu við notendur og fagaðila. Sú vinna hefur skilað sér í vandaðri vörulínu mjúkra ávaxta og snáks auk handleggjastoðar og annarra sérlausna.

woman-shrugging

“Afhverju bara?”
“Bara!” Sagði hún og yppti öxlum.

Nafnið “Bara” kom til vegna áherslu okkar á að minnka álag á axlir við hönnun fyrsta stuðningspúðans og tenging orðsins við líkamstjáninguna þegar við yppum öxlunum.

 

Móttökur

Það var ákveðin viðurkenning fyrir okkur að Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands hóf strax árið 2006 að úthluta vörunum til skjólstæðinga sinna. Sá meðbyr og góðar móttökur bæði viðskiptavina og fagfólks hefur fleytt okkur á þann stað sem við erum í dag, enn að skapa nýjar vörur með ánægju og vellíðan viðskiptavina okkar að leiðarljósi.

Frá upphafi hefur okkur þótt mikilvægt að notast við gæðaefni svo úr verði gæðavörur. Vegna þessa vitum við enn af tæplega tíu ára gömlum stuðningspúðum í fullri notkun í faðmi notenda. Það er okkur mikil hvatning að heyra frá þessum notendum og öðrum sem njóta góðs af vörunum.

 

Framtíðarsýn

Tæpur áratugur hefur reynst Bara vel, vörurnar og hugmyndarfræðin hefur fengið að þróast og þroskast og í dag stöndum við á ákveðnum tímamótum. Stefnan er tekin á að koma vörunum í frekari dreifingu bæði hér á landi og erlendis og er þá sérstaklega horft til markaða í norður og vestur Evrópu.
Á sníðaborðinu liggja þar að auki hugmyndir að nýjum vörum sem mun vera spennandi að kynna og koma á framfæri.

Bara er vaxandi fyrirtæki sem með meiri umsvifum ætlar sér að auka viðskiptatækifærin samfara því að fjölga starfsfólki og skapa notendum enn meiri vellíðan og gleði.

Starfsmenn

Bara með ánægju þína og vellíðan að leiðarljósi!

Ásta Ingvarsdóttir
Ásta Ingvarsdóttir
Framleiðsla

Ásta hefur saumað vörurnar frá Bara síðan árið 2005. Verkkunnátta hennar og reynsla hefur átt drjúgan þátt í því að þróa og einfalda alla verk- og framleiðsluferla.
Það skiptir Ástu miklu máli að öll efni séu vönduð, snið nákvæm og áhöld og vélar í lagi.

Fagleg vinnubrögð og þolinmæði einkenna hennar störf og endurspeglast alúð hennar, ást og gætni í vönduðum frágangi á vörunum sem notendur og við hjá Bara njótum ómetanlega góðs af.

Birkir Brynjarsson
Birkir Brynjarsson
Markaðsstjóri

Með sinn brennandi áhuga á hönnun, grafík, ljósmyndun og forritun kom Birkir að fyrirtækinu sumarið 2014. Hans helsta hlutverk er að taka þátt í þeirri ímyndar- og stefnumótunarvinnu sem á sér stað á þeim tímamótum sem Bara er á í dag.

Birkir útskrifaðist úr Margmiðlunarskólanum árið 2011 og fór þaðan í Tölvunarfræðinám við Háskólan í Skövde í Svíþjóð (2011 – 2013).

Áherslur Birkis á gott skipulag og hæfileikinn til að fanga það besta í fólki, hugmyndunum og vörunum mun nýtast Bara vel!

Sími: 772-7773
E-mailbirkir@barahealth.com

Bjargey Ingólfsdóttir
Bjargey Ingólfsdóttir
Hönnuður og Stofnandi

Bjargey veit ekkert betra en að skapa lausnir sem bæta líðan og heilsu fólks. Hún hefur verið lánsöm að heyra sögur fólks á öllum aldri sem hafa haft bæði gagn og gleði af Bara vörunum sem er henni dýrmæt hvatning til að halda áfram að skapa.

Bjargey ólst upp í frjóu umhverfi á Íslandi þar sem sköpunarkraftur og hugmyndaauðgi fékk notið sín. Hún útskrifaðist sem iðjuþjálfi frá Ergoterapihøgskolen í Þrándheimi Noregi árið 1984 og hefur starfað sem iðjuþjálfi bæði í Noregi og á Íslandi. Þá hefur Bjargey unnið verk úr margvíslegum efnivið og tekið þátt í hönnunar-og listsýningum á Íslandi, á Norðurlöndunum og í New York.

Það má segja að Bara vörurnar séu ávöxtur iðjuþjálfunar og listsköpunar sem endurspeglast í hönnun og virkni púðanna.

Sími: 864-7876
E-mail: bjargey@barahealth.com

Hafa Samband

Ertu með spurningu? ... Sendu okkur skilaboð

Við hvetjum þig eindregið til að hafa samband, hvort sem það er til að benda á það sem við getum gert betur eða “bara” deila góðri reynslu af vörunum með okkur. Við erum reiðubúin til að svara öllum spurningunum þínum.

Tölvupóstur: bara@barahealth.com
Farsími: 864-7876 (Bjargey)